Launamál starfsmanna einkamál skólastjórans...
Þann 15/11 2018 sendi AFL fyrirspurn á skólastjóra grunnskóla Fáskrúðsfjarðar um skuld nokkurra félagsmanna AFLs sem starfa við skólann, þar sem öll yfirvinna þeirra var tekin upp í meinta skuld án þess að gefa þeim viðhlítandi skýringu.
AFL óskaði eftir útreikningi á skuld félagsmanna við skólann á tímabilinu 1/5 2015 fram til ársloka 2018. Jafnframt var óskað eftir útreikningi á þeirri yfirvinnugreiðslu sem tekin hafði verið upp í skuldina.
Ítrekun var send á skólastjórann 6/12 2018 þar sem engin viðbrögð höfðu verið við fyrirspurninni.
Skemmst er frá því að segja – að engin svör hafa borist þegar þetta er skrifað þann 14. júní 2019 eða 7 mánuðum síðar.
Ekki er hægt að líta á sinnuleysi skólastjórans á annan veg en að launamál starfsfólks skólans séu hans einkamál og stéttarfélagi þeirra komi málið ekkert við.
Hér með er skorað á skólastjóra grunnskóla Fáskrúðsfjarðar að bregðast við fyrirspurninni og svara henni með rökum.
Félagið hefur, eftir óformlegum leiðum fengið veður af því að búið sé að ,,semja“ við einhverja starfsmenn um einhverjar greiðslur. Félagið hefur ekki aðgang að forsendum slíkra leiðréttinga og hefur uppi efasemdir um þær.