- Segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs í viðtali við Austurgluggann.
Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, hefur gefið kost á sér í embætti forseta Alþýðusambands Íslands, á þingi þess sem fram fer í október. Viðtalið við Austurgluggann fer hér á eftir.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, hefur ákeðið að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ á þingi þess í október. Núverandi forseti sambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, tilkynnti á dögunum að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Hann var fyrst kjörinn haustið 2008 og hefur verið endurkjörinn fjórum sinnum.
„Ég held að við stöndum á krossgötum núna. Það hafa verið harðar deilur innan verkalýðshreyfingarinnar og jafnvel hætta á því að Alþýðusamband Íslands skaðist varanlega af þeim. Gylfi ákvað að stíga til hliðar til að freista þess að skapa einhverja sátt um Alþýðusambandið og ég held að næstu ár verði mikilvægt að halda opnu samtali milli allra hópa innan vébanda ASÍ og freista þess að skapa frið.
Ég held að ég geti unnið með öllum hópum innan ASÍ, minn málflutningur síðustu ár og áherslur AFLs hafa verið nálægt áherslum þeirra nýju formanna sem hafa verið að koma til starfa. AFL hefur alltaf verið í róttækari kantinum innan sambandsins en við höfum líka lagt áherslu á að ná sátt um markmið og vinna að þeim af heilindum – líka þegar við verðum undir í aðdragandanum,“ segir Sverrir.
Stundum átt erfitt með að sætta mig við hægaganginn
Sverrir hefur verið framkvæmdastjóri AFLs frá 2005 og kom þangað eftir að hafa séð auglýsingu frá félaginu í vinnuskúr í Kárahnjúkavinnubúðunum en þar vann hann sem bílstjóri. „Ég var á norsku frystiskipi og fiskaði mest í Barentshafinu en einnig ufsa við Shetlandið og löngu og keilu við Færeyjar. Á sumrin fór ég svo gjarna á hákarlaveiðar í Norðursjónum og það var skemmtilegur veiðiskapur. Árið 2005 tók ég mér nokkurra mánaða frí frá sjónum og réð mig á Kárahnjúka til þriggja mánaða en einhverra hluta vegna er ég enn á Austurlandi.“
Sverrir segir Austfirðinga hafa frá upphafi tekið sér vel í nýju starfi. „Vissulega þurfti ég að læra ótal margt upp á nýtt og tileinka mér fagleg vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar. Stundum hef ég átt erfitt með að sætta mig við hægaganginn í mörgum málum. Við vorum vanir að leysa málin hratt og örugglega til sjós og þá var ekkert hægt að kalla á aðstoð eða hringja á vælubílinn.“
„Ég tel mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna“
Sverrir var í lykilhlutverki fyrir félagið sitt, AFL Starfsgreinafélag Austurlands, þegar þrjú félög á Austurlandi sameinuðust 2007, þ.e. gamla AFL, Vökull Stéttarfélag á suðursvæðinu og svo Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar.
„Það voru átök í sameiningarvinnunni og ég lærði mikið af því ferli. Ég held að þetta hafi verið farsælt skref fyrir Austfirðinga og ég vona að allir séu sáttir núna. Ég hef átt frábært samstarf við þá aðila sem komu þá til forystu í nýju félagi og mér finnst vera mjög góður andi innan félagsins. Við höfum lagt mikla vinnu í að dreifa ábyrgð og fá sem flesta til skrafs og ráðagerða. Þannig koma yfir 100 manns að kjarasamningagerð okkar í hvert sinn, bæði í stóru samninganefnd félagsins og í minni samninganefndum um einstaka kjarasamninga.“
Aðspurður um áherslur hans ef hann næði kjöri sagði Sverrir: „Ég myndi vilja helga næstu árin því að byggja upp félagslega samstöðu innan Alþýðusambandsins og hverfa dálítið aftur að upprunanum. Samningsrétturinn liggur hjá hverju félagi og menn hafa verið að fara saman í viðræður af því það hefur talið skila meiri árangri – en á sama hátt getur það grafið undan tiltrú hjá einstökum hópum sem finnst hagsmunir þeirra fyrir borð bornir. Ég tel því mikilvægt að efla sjálfstæði félaganna.“
Valdið kemur frá aðildarfélögunum
„Á liðnum áratugum höfum við haft mjög áberandi forseta og sterka sem hafa komið inn í forystu úr starfsmannahópi sambandsins. Þetta hafa verið afgerandi einstaklingar sem hafa styrkt hlutverk ASÍ sem forystuafls. Ég tel nauðsynlegt að næsti forseti komi úr félagsstarfinu, einhver sem skilur að allt vald Alþýðusambandsins á uppruna í félögunum. Alþýðusambandið á að þjóna aðildarfélögum en ekki öfugt.
Alþýðusambandið á að vera hinn faglegi samráðsvettvangur og faglegt bakland fyrir félögin. Þar eigum við að fjalla um okkar sameiginlegu mál, samfélagsmálin og fylkja okkur á bak við sameiginleg markmið.
Flest aðildarfélög Alþýðusambandsins eru sterk og öflug félög og fullfær um að veita kjarasamningum sínum forystu og bera ábyrgð á þeim. Það á alla jafna ekki að vera hlutverk Alþýðusambandsins.“
Aðspurður segist Sverrir vera reiðubúinn til að takast á við þetta verkefni. „Ég kem úr grasrót stórs verkalýðsfélags á landsbyggðinni. Ég hef tekið virkan þátt í að byggja það upp og í dag er það með sterkustu félögum í ASÍ. Í AFLi er fólk úr flestum starfsgreinum þannig að ég hef haft mikil og náin samskipti við fólk úr öllum landssamböndum ASÍ, auk þess að hafa setið í miðstjórn um nokkurt skeið. Þessi reynsla er gott veganesti í það vandasama starf sem forseti í þessum mikilvægustu samtökum íslensks launafólks er,“ segir Sverrir að lokum.