Síðustu daga hefur nokkur fjöldi manna gengið hart fram á samfélagsmiðlum í málflutningi um nýgerðan kjarasamning sjómanna í Sjómannasambandi Íslands - til þess að hvetja til að sjómenn felli samninginn. Fæstir þeirra sem harðast ganga fram eru sjómenn. Flestir þeir sem harðast berjast gegn því að sjómenn samþykki þann kjarasamning sem nú er til umfjöllunar - taka ekki laun skv. þessum samningi. Þessir aðilar leggja sjálfir 15,5% í lífeyrissjóð og njóta örorkutryggingar í samræmi við það. Þeir hafa notið allra samningsbundinna launahækkana síðustu ár. Þeir hafa staðgengilslaun í veikindum í þrjá mánuði eða lengur. En þeir virðast ekki vilja una sjómönnum þessara hluta.
Í öllum skoðanakönnunum og samtölum við sjómenn síðustu ár - hefur krafa um jafnan lífeyrisrétt verið háværust. Það næst í þessum samningi. Óréttlætið í veikindum sjómanna er mikið. Menn í skiptimannakerfum með 50% hlut fá staðgengilslaun í tvo mánuði en eru síðan á kauptryggingu. Með þessum samningi eru staðgengilslaun manna í skiptimannakerfum tryggð í 4 mánuði. Veikinda-og slysaréttur manna í afleysingum eru óbreyttur og fer skv. sjómannalögum.
AFL Starfsgreinafélag hefur reynt að hafa samráð við félagsmenn - bæði á meðan samningaviðræðum stóð og nú á meðan atkvæðagreiðslu stendur. Áður en samninganefnd Sjómannasambandsins skrifaði undir samninginn mættu sjómannafélögin með nokkurn fjölda starfandi sjómanna - manna sem hafa lifibrauð sitt af sjósókn og alla hagsmuni af því að samningar séu ásættanlegir. Alls komu um 40 sjómenn til fundar í húsi sáttasemjara þann 30. janúar. Sjómannafélögin reyndu að fá þá félagsmenn sína sem gagnrýnir voru við síðustu atkvæðagreiðslu og sögðu nei við þeim samningi. Þetta er nefnilega ekki stríð eða átök milli manna heldur samvinna og samstaða um árangur. Sjómannafélögin innan Sjómannasambandsins útiloka því ekki þá sem eru gagnrýnir heldur kallar á þá inn til þátttöku. Fyrir okkur er þetta ekki persónulegt - við móðgumst ekki þegar samningar eru felldir - heldur reynum við að bregðast við og gera betur. Þegar við teljum okkur ekki komast lengra - leggjum við samninginn í atkvæðagreiðslu.
Þeir sem pósta núna rangfærslum og ósannindum um kjarasamning sjómanna eru með því að lýsa vanþóknun sinni á þeim 40 sjómönnum sem funduðu með samninganefnd SSÍ og gáfu henni einróma heimild til að halda áfram. Þeir eru að gera lítið úr gáfnafari og dómgreind starfandi sjómanna með því að tyggja í þá rangfærslur og ósannindi daginn út og inn. Sjómenn í AFLi eru alveg einfærir um að gera upp hug sinn varðandi þann samning sem í boði er. Flestir þessara aðila sitja bak við skrifborð í landi, með fullan lífeyrisrétt og góðan veikindarétt og reyna að hafa þessi gæði af sjómönnum. Skömm sé þeim.
Það er engin stétt á Íslandi sem má þola jafn miklar og ósvífnar árásir manna sem telja sig "sjómenn" en hafa ekki komið á sjó í mörg ár. Það eru engir kjarasamningar sem sæta þvílíkum árásum og ofstæki en kjarasamningar sjómanna. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvað mönnum gangi til - hvort það sé bara eintóm illgirni og óþverraháttur. Sjómenn eru einfærir um að gera kjarasamninga og þurfa ekki aðstoð einhverra "áhugasjómanna".
Það er nóg af gagnrýnum röddum í okkar hóp. Þeir eru hins vegar málefnalegir og koma spurningum og gagnrýni á framfæri við forystu félaganna og fá svör. Þeir ganga ekki um og níða menn niður.
AFL Starfsgreinafélag hefur nær aldrei fjallað um önnur stéttarfélög og málefni þeirra. Okkur finnst ósmekklegt að reyna að hafa áhrif á samninga eða málefni annarra félaga. Félagsmenn verkalýðsfélaga eiga rétt á að ráða ráðum sínum án utanaðkomandi afskipta sjálfskipaðra sérfræðinga sem sjálfir bera enga áhættu og hafa enga hagsmuni aðra en að eyðileggja og spilla málum.
Kosningar um þann kjarasamning sem nú er til afgreiðslu eru mikilvægar. Það er ljóst að ef samningurinn fellur verður forysta Sjómannasambandsins í vanda - með tvífellda samninga. Hætt er við að talsverð töf verði á áframhaldandi viðræðum því það þarf að fara í djúpt samráð í félögunum varðandi framhaldið. Sjómenn verða því áfram í mánuði eða misseri með unglingavinnulaun í tímavinnu, með kauptryggingu langt fyrir neðan lægstu launataxta í landi. Með lélegust lífeyriskjör í landinu og lélegan veikindarétt.
Úrtölumenn bera því mikla ábyrgð. Ef sjómenn fella samninginn eftir gaumgæfilega skoðun - er ekkert við því að segja og menn verða þá að bretta upp ermar. En falli samningurinn vegna áróðurs sófasérfræðinganna í landi - er ábyrgð þeirra mikil því það verða sjómenn sem bera tjónið - ekki úrtölumennirnir.
Og þar sem Sjómannafélag Íslands sá ástæðu til að vara við þessum samningi - þá er rétt að benda á að meginhlutverk og ábyrgð verkalýðsfélaga er að gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína. Kjarasamningur Sjómannafélags Íslands rann út 2019 og enn hefur ekki heyrst af neinum viðræðum þeirra við viðsemjendur. Kannski þeim þyki þægilegra að gera ekki neitt og gera svo hróp að þeim sem gera eitthvað. Það er náttúrulega miklu auðveldara en að axla ábyrgð og gera kjarasamning og leggja í dóm félagsmanna.
Það er ástæða að vekja og athygli á því að það fara engar sögur af því að eitthvað verkalýðsfélag, innanlands sem ytra, hafi gert hinn fullkomna kjarasamning. Það má alltaf gera betur. En þegar menn eru komnir að því sem þeir meta endastöð hverju sinni - leggja menn þann samning í dóm félagsmanna. Það er ekki flókið.