AFL starfsgreinafélag

Slitnaði á mönnunar-og öryggismálum!

Sjómannaverkfall er hafið. Að sögn formanns Sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags, Grétars Ólafssonar,  slitnaði á ágreiningi um alls 10 stöðugildi í flotanum öllum. Sjómenn gera kröfu um að bætt verði við ienum háseta á uppsjávarskip og kokkarnir hætti að koma á dekk. Sjómannadeild AFLs hefur fjallað um öryggismál á uppsjávarskipum í nokkur ár og m.a. sent atvinnumálanefnd Alþingis erindi vegna þessa - án þess að hafa verið virt svars.

Að sögn Grétars á hann von á að verkfallið geti varað einhvern tíma og segist ekki sjá samkomulag í augsýn. Hann sagði sjómenn hafa gefið eins mikið eftir í mönnunarkröfum og unnt væri - og lengra yrði ekki farið í því efni. Því mætti búast við að flotinn yrði við bryggju næstu daga eða vikur.

Grétar sagðist búast við tilraunum til verkfallsbrota - einkum á minni bátum þar sem menn þættust hafnir yfir samninga. Einnig sagði hann að menn hefðu verið með alls kyns brellur svo sem að leggja línu rétt fyrir upphaf verkfalls - en allt að sólarhring getur tekið að draga línuna aftur.  Brugðist verður hart við verkfallsbrotum að sögn Grétars og á hann ekki von á að sjómenn rói svo glatt með verkfallsbrjótum í framtíðinni.

Ekki stéttarfélaganna að mæta niðurskurði í heilbrigðismálum!

Starfsgreinasamband Íslands sendi frá sér eftirfarandi ályktun í dag.

Stéttarfélögum út um allt land hefur borist beiðni frá Landspítalanum um að nýta orlofsíbúðir félaganna þegar þörf er á að kyrrsetja þungaðar konur/foreldra utan af landi í Reykjavík vegna veikinda. Stéttarfélög hafa byggt upp orlofsíbúðir af miklum metnaði síðustu áratugi fyrir félagsfólk sitt til að auka lífsgæði þeirra og gera fólki kleift að ferðast um landið. Eftir því sem heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni hrakar og fólk þarf í auknum mæli að leita sér lækninga til höfuðborgarsvæðisins hafa þessar íbúðir verið nýttar fyrir veikt fólk og þungaðar konur. Stéttarfélögin standa við bakið á sínum félagsmönnum en það er algerlega ófært að treyst sé á að stéttarfélögin bæti fyrir versnandi heilbrigðisþjónustu fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur til viðbótar því vinnutapi sem sífellt lengri vegalengdir og fjarvistir vegna læknisaðstoðar kalla á. Hið opinbera á að sinna skyldum við fólk alls staðar af landinu og ekki treysta á sjóði sem félagsmenn stéttarfélaga hafa byggt upp í áratugi. Það er skýr krafa aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins að hið opinbera tryggi jafnræði á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og sinni skyldum sínum gagnvart veiku fólki og þunguðum konum sem ekki geta lengur sótt þjónustu í heimabyggð.

Jól og Áramót í orlofsíbúð

Við viljum vekja athygli á að umsóknafrestur vegna íbúða um jól og áramót er til 9. nóvember. Umsóknareyðublað

Úthlutun fer fram 10. nóvember og allir sem sótt hafa um fá svar fljótlega upp úr því, hvort sem þeir hafa fengið úthlutað eða ekki.

Allt vitlaust út af Kjararáði!

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands hefur verið boðuð á fund í dag vegna úrskurðar Kjararáðs í gær sem hækkaði laun alþingismanna, ráðherra og forseta um tugi prósenta. Hjördís Þóra, formaður AFLs, segir að símarnir hafi varla stoppað í morgun - þar sem óánægðir félagsmenn hafi hringt inn og krafist aðgerða. Hjördís segir að það sé verulega þungt í fólki og því finnist þessi hækkun ömurleg skilaboð á sama tíma og verið sé að boða efnhagslegan stöðugleika og höfða ábyrgðar launafólks.

Hjördís vildi minna á að í febrúar verður tekin afstaða til forsenduákvæða gildandi kjarasamninga og munu ákvarðanir kjararáðs nú og í haust væntanlega hafa veruleg áhrif á viðhorf samninganefndar verkalýðshreyfingarinnar. Meðal þess sem einstaka félagsmenn hafa nefnt - er að launafólk allt leggi niður vinnu á tilteknum tíma og gangi út af vinnustöðum - en Hjördís segir að m.a. vegna ákvæða í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og vegna gildandi kjarasamninga geti félagið í sjálfu sér ekki hvatt til þess - enda myndi flokkast sem ólögmæt vinnustöðvun -  en bætti við að þetta væri athyglisverð hugmynd.

42. þing Alþýðusambands Íslands

ASI2016a

42. þing Alþýðusambands Íslands var sett nú kl. 10 í morgun. AFL Starfsgreinafélag á 14 fulltrúa á þinginu - einn frá Iðnaðarmannadeild og einn frá Verslunarmannadeild og tvo frá Sjómannadeild og 10 frá Verkamannadeild.  Meginþema þingsins er SALEK - hið "samnorræna samningamódel".

Einn þingfulltrúi AFLs, Pálína Margeirsdóttir, var kjörin ein af þingriturum og AFL hefur einnig lagt málefnanefndum þingsins til ritnefndarfulltrúa.

AFL´s konur leggja niður vinnu!

1438

Búast má við að konur í starfsliði AFLs gangi út í dag í tilefni baráttudags kvenna. Einn þriggja karlmanna í starfsliðinu er erlendis og einn í sumarfríi þannig að væntanlega verður þunnskipaður bekkur á skrifstofum félagsins í dag.  Við vonum að félagsmenn sýni því skilning og þolinmæði.

Verkfall samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. 70% kjörsókn

Talið hefur verið út atkvæðagreiðslu sem staðið hefur yfir meðal sjómanna í Sjómannadeild AFLs Starfsgreinafélags um verkfallsboðun. Atkvæðagreiðsla fór fram meðal allra aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og hjá félagi vélstjórnarmanna um verkfall þann 10. nóvember n.k. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var góð og niðurstaðan afgerandi en hún er eftirfarandi: Ekki liggja fyrir úrslit atkvæðagreiðslna annarra félaga þegar þetta er ritað.

Á kjörskrá             154
Atkvæði greiddu    108    70,13%
Já sögðu                  91    84,26%
Nei sögðu                16    14,81%
Ógildir                        1     0,93%
Verkfallið er ótímabundin og hefst þann 10. nóvember n.k. hafi ekki samist fyrir þann tíma