AFL starfsgreinafélag

Samþykkt hjá 6 fyrirtækjum - fellt hjá tveimur

Atkvæði hafa verið talin í atkvæðagreiðslum um samninga við undirverktaka á álverslóð.

Starfsmenn eftirtalinna fyrirtækja samþykktu samningana:

Launafl, VHE, Fjarðaþrif, Lostæti, Sjónarás, Eimskip. Kjörsókn var frá 23% til 80%. Já voru frá 68% - 100%.  Starfsmenn Brammer og Securitas felldu sína samninga með verulegum mun - 60% og 70%.

Verslunarmenn fresta - ekki verkamenn

Verkfalli verslunarmanna í AFLi sem hefjast átti á fimmtudag hefur verið frestað um 5 sólarhringa. Þetta var tilkynnt af samninganefnd Landsambands Íslenskra Verslunarmanna í gær í kjölfar óformlegra funda sem samninganefnd sambandsins átti um helgina með SA.

Verkfalli Starfsgreinasambandsins utan höfuðborgarsvæðis hefur ekki verið frestað þannig að allt stefnir í að verkafólk í AFLi fari í verkfall eins og boðað hefur verið á fimmtudag og föstudag.  6. júní hefst síðan ótímabundið verkfall verkafólks um land allt utan höfuðborgarsvæðis - hafi ekki samist fyrir þann tíma.

Undirverktakar; Kjörfundi að ljúka!

Kynningum á samningum AFLs við 8 undirverktaka á álverslóð er lokið. Flestir sem samningarnir taka til hafa haft tækifæri til að greiða atkvæði um þá á kynningarfundum en kjörfundur verður opinn á morgun, þriðjudaginn 25.maí að Búðareyri 1, Reyðarfirði. Kjörfundi lýkur kl. 16:00 og verða atkvæði talin kl. 17:00.

Verkfallsboðun samþykkt

Verslunarmenn í AFLi samþykktu í rafrænni atkvæðagreiðslu verkfallsboðun. Kjörsókn var 33% og já sögðu 82,2%.  Verkfallsaðgerðir verða sem hér segir.

Verkfall komi til framkvæmda sem hér segir: 

28. maí og 29. maí 

  Hópbifreiðafyrirtæki 
frá kl. 00:00 28. maí til kl. 24:00 29. maí 
30. maí og 31. maí

  Hótel, gististaðir og baðstaðir 
frá kl. 00:00 30. maí til kl. 24:00 31. maí
31. maí og 1. júní

  Flugafgreiðsla 
frá kl. 00:00 31. maí til kl. 24:00 1. júní
2. júní og 3. júní

  Skipafélög og matvöruverslanir 
frá kl. 00:00 2. júní til kl. 24:00 3. júní
4. júní og 5. júní

  Olíufélög 
frá kl. 00:00 4. júní til kl. 24:00 5. júní
 Ótímabundið allsherjarverkfall hefst kl. 00:00 þann 6. júní 2015 

SGS frestar verkföllum

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu verkfalli 10.000 félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands dagana 19. og 20. maí. Að auki hefur ótímabundnu verkfalli sem átti að hefjast 26. maí verið frestað. Það er mat samninganefndar SGS að gefinn skuli tími til úrslitatilrauna í samningaviðræðum á þessu stigi málsins.

Með þessu axlar SGS ábyrgð á erfiðum kjaradeilum og gefur Samtökum atvinnulífsins tækifæri til að koma með tillögur sem hönd er á festandi áður en landið lamast í verkföllum og hér skellur á neyðarástand á vinnumarkaði.

Frestun verkfalla á þessu stigi málsins er framlag Starfsgreinasambandsins til skynsamlegra lausna á kjaradeilunni. Ljóst er að það verður að leysa málið og semja hvort sem það verður gert með verkfallsafli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum eða með skynsemina að vopni. Boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins að nálgast skynsamar og ábyrgar kröfur Starfsgreinasambandsins.

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur því ákveðið eftirfarandi:

Verkföll sem áttu að koma til framkvæmdar 19. og 20. maí er frestað til 28. og 29. maí.

Ótímabundnu verkfalli sem átti að koma til framkvæmda 26. maí er frestað til 6. júní.

„Eftir tvær vikur hefjast verkföll af stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður ef ekki tekst að semja. Þau munu hafa veruleg og víðtæk áhrif og það er mikið til vinnandi að afstýra slíku. Framlag Starfsgreinasambandsins í þessu samhengi er að gefa andrými næstu tvær vikurnar til að semja svo ekki þurfi að koma til þessara hörðu aðgerða.“ Segir Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins.

Iðnaðarmenn: Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun

Eftirtalin félög og sambönd: VM- Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samiðn,  MATVÍS, Rafiðnaðarsamband  Íslands, Grafía –(FBM) stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum og Félag hársnyrtisveina hafa ákveðið að boða til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun sem yrði með eftirfarandi hætti:

Tímabundið verkfall dagana 10. t.o.m 16. júní 2015 og
ótímabundið verkfall sem hefst þann 24. ágúst 2015.

Verði  verkföllin samþykkt munu þau taka til þeirra félagsmanna sem falla undir almennan kjarasamning  Samtaka atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga og sambanda. Þar með talið iðnaðarmenn í AFLi Starfsgreinafélagi utan þeirra sem starfa hjá ALCOA Fjarðaál eða falla undir nýgerða samninga um kjör hjá undirverktökum ALCOA.

Kosning um verkfallsheimild verður rafræn og mun hefjast þann 24. maí 2015 og ljúka þann 1. Júní 2015, kl 10.00

Fulltrúar iðnaðarmanna hafa átt í viðræðum við SA um endurnýjun kjarasamninga.  Á fundi viðræðunefndar félaganna með fulltrúum SA þann 5. maí s.l. var sýnt að viðræðurnar væru árangurslausar og það hefði ekki  tilgang að halda þeim áfram.

Í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir hafa iðnaðarmannafélögin lagt áherslu á  að minnka vægi yfirvinnu í heildarlaunum með því að hækka dagvinnulaun svo þau  dugi til framfærslu.  Mikil þörf er fyrir nýliðun í greinunum  en núverandi launakerfi  hafa  skapað starfsumhverfi sem höfðar síður  til ungs fólks.     

 

Verslunarmenn í atkvæðagreiðslu um verkföll

Trúnaðarráð hefur samþykkt tillögu stjórnar verslunarmannadeildar AFLs um að láta efna til leynilegrar allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls meðal félagamanna deildarinnar. Önnur aðildarfélög LÍV eru jafnframt að fara í atkvæðagreiðslur.
Atkvæðagreiðslan er rafræn og er aðgangur á heimasíðu LÍV www.landssamband.is. Kjörgögn verða póstlögð þann 12. maí með upplýsingum um hvernig á að bera sig að við atkvæðagreiðsluna. Atkvæðagreiðslan hefst kl. 09:00 þann 12. maí nk. og líkur kl. 12:00 á hádegi þann 19. maí.