AFL starfsgreinafélag

Kjarasamningur undirritaður við Alcoa Fjaraðaál.

Á föstudaginn var undirritaður nýr vinnustaðasamningur milli AFLs/RSÍ við Alcoa.
Samningurinn gildir frá 1 mars s.l. og er til 5 ára.
Kynningar og atkvæðagreiðsla um samninginn fara fram eftir verslunarmannahelgi. sjá hér

Iðnaðarmannadeild samþykkir kjarasamning

Iðnaðarmannadeild AFLs hefur samþykkt kjarasamninga sem deildin gerði í samfloti við Samiðn í júní. 60% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já, 35% nei og 5% voru auðir og ógildir. Kosningin var rafræn og félaginu hefur ekki borist fundargerð kjörstjórnar svo ekki liggja fyrir tölur um þátttöku.

Frestun á samningaviðræðum við ríkið og við sveitarfélögin

Samninganefndir SGS hafa gengið frá samkomulagi við samninganefnd ríkisins annars vegar og hins vegar samninganefnd Sambands Íslenskra Sveitarfélaga um frestun viðræðna. Í samkomulaginu er gengið frá því að það sem um semst í samningum sem undirritaðir verða fyrir 1. október mun gilda afturvirkt frá 1. maí síðastliðnum, eða frá þeim tíma þegar kjarasamningarnir runnu út. Vegna sumarleyfa samninganefnda óskuðu viðsemjendur SGS eftir frestuninni.

Endurskoðun starfsmats er lokið

Félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum taka laun eftir starfsmati þar sem störfin eru metin í stigum eftir ákveðnu kerfi og fjöldi stiga segir til um hversu mikið er greitt fyrir hvert starf, þ.e. hvar það lendir í launatöflunni. Í kjarasamningum 2014 var bókun sem ákvað að ráðast skyldi í endurmat á öllum störfum sem rúmast innan kjarasamninga SGS og Samband Íslenskra sveitarfélaga og er þeirri endurskoðun nú lokið. Niðurstaðan er sú að flest störf eru metin til hærri stiga en þau voru áður og skilar það sér í hækkun á launaflokkum. Auk þessara starfa er fjöldinn allur af staðbundnum störfum hjá einstaka sveitarfélögum sem hafa einnig verið endurmetin. Þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið eiga að vera afturvirkar frá 1. maí 2014. Margir starfsmenn sveitarfélaga geta vænst þess að fá leiðréttingu á sínum launum heilt ár aftur í tímann, auk þess að raðast hærra í launaflokk í framtíðinni. Fyrir 1. ágúst, þó ekki síðar en 1. september skal vera búið að raða starfsmanni í réttan launaflokk út frá nýju starfsmati. Í ljósi þess að um töluverða vinnu er að ræða er sveitarfélögum gefið svigrúm til 1. október 2015 til að leiðrétta launin aftur í tímann.
Sveitarfélögin hafa fengið nýtt starfsmat í hendurnar og stéttarfélögin líka. Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með hvort að leiðréttingar skili sér, og einnig hvort starfsfólki sé raðað rétt í launatöfluna o.s.frv. Til að sjá breytingarnar má fletta upp störfum HÉR.

Iðnaðarmenn semja - verkfalli aflýst!

Í dag undirritaði Samiðn f.h. aðildarfélaga nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins sem gildir til loka árs 2018.
Almennar launahækkanir eru í takt við gerða samninga SGS og LÍV sem undirritaðir voru 29. maí s.l. og voru samþykktir í dag með miklum meirihluta atkvæða. Almennar launahækkanir eru metnar á um 16% en þær eru breytilegar vegna launaþróunartryggingar.
Gerðar eru breytingar á kauptaxtakerfinu. Byrjunartaxti var færður upp í eins árs taxta, öðrum töxtum hliðrað upp en sjö ára taxti fellur út. Þannig hækka byrjunarlaun um rúm 15% strax, en um 30% á samningstímanum. Með breytingum á kauptaxtakerfinu er verið að færa taxtakerfið nær markaðslaunum en það er gert m.a til að draga úr félagslegum undirboðum.
Auk þessa voru gerða ýmsar lagfæringar á gildandi kjarasamningi.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum. Atkvæðagreiðsla hefst í byrjun næstu viku og lýkur kl. 12:00 miðvikudaginn 15. júlí.

Sjá samninginn hér

Félagsmenn samþykkja samninga.

Félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags hafa samþykkt samning AFLs / SGS við Samtök Atvinnulífsins svo og samning AFLs / Landssambands Íslenskra Verslunarmanna við Samtök Atvinnulífsins.

Á kjörskrá um samning AFLs /SGS voru 1348, atkvæði greiddu 343 eða 25,45%. Já sögðu 254 eða 74,05%. Nei sögðu 81 eða 23,62% en 2,3% voru auð og ógild atkvæði.  Á kjörskrá um samning verslunarmanna voru 219. Atkvæði greiddu 35 eða 15,98%. Já sögðu 29 eða 82,9%.  Nei sögðu 5 eða 14,3%, eitt atvkæði var autt.

Báðir samningarnir hafa því tekið gildi.