AFL starfsgreinafélag

Til góðra verka

 

AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag AFL starfsgreinafélag

Vonbrigði en smá ánægja líka: ASÍ um stjórnarsáttmálann

Á örlagatímum hefur hreyfing vinnandi fólks lagt áherslu á að verja hið opinbera velferðarkerfi, afkomu fólks og auka jöfnuð í gegnum skattkerfið. Í nýjum stjórnarsáttmála, sem gefinn er út þegar verðbólga er mikil og erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði, er lögð áhersla á að vaxa út úr kreppunni í stað þess að auka álögur. Minna fer fyrir þeim ásetningi að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar.

Sérstaklega veldur það vonbrigðum að loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana 2019 eru endurunnin og útþynnt í sáttmálanum. Þar ber hæst loforð um húsnæðismarkaðinn og þann kostnað sem heimilin bera, hvort sem fólk er á leigumarkaði eða eignamarkaði. Stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfin mun ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023.

Hvergi er minnst á að styrkja atvinnuleysistryggingakerfið, setja á leigubremsu á leigumarkað, styrkja vaxtabótakerfið eða skilgreina hlutfall íbúðabygginga á félagslegum grunni. Enn á ný er hins vegar lofað að lögfesta 15,5% framlag launafólks í lífeyrissjóði, loforð sem hefur ítrekað verið svikið, svo og að staðfesta lög gegn kennitöluflakki. Þá hefur kröfum hreyfingarinnar um önnur atriði, svo sem útvíkkun á keðjuábyrgð, framhald átaksins Allir vinna og staðfesting á févíti vegna launaþjófnaðar ekki verið mætt í sáttmálanum.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fagnar því að nú sé kominn til starfa félags- og vinnumarkaðsráðherra sem lýsir áherslum nýrrar ríkisstjórnar á vinnumarkaðsmál. Gríðarlegar áskoranir eru framundan vegna endurnýjunar kjarasamninga næstu tvö árin og réttlátra umskipta vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Þar mun öllu máli skipta að vera í góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna, verja sjálfstæði hennar og slagkraft og styrkja möguleika fólks til starfsmenntunar og þátttöku á heilbrigðum vinnumarkaði. 

Miðstjórn Alþýðusambandsins fagnar staðfestingu á auknu samráði við vinnumarkaðinn og er tilbúið til viðræðna um bætt verklag í kjaraviðræðum. Verkalýðshreyfingin mun hins vegar berjast gegn öllum hugmyndum um að auka völd ríkissáttasemjara sem lúta að takmörkun verkfallsréttar eða samningsumboðs og sjá til þess að þær munu ekki ná fram að ganga. 

Alþýðusambandið er tilbúið í alla samvinnu sem lýtur að því að efla sí- og endurmenntun og auka tækifæri fólks til menntunar. Þrátt fyrir yfirlýsingar hefur skort aðgerðir í málaflokknum. Í raun hefur dregið úr stuðningi við framhaldsfræðslu síðustu ár og áratugi svo ekki verður við unað á tímum örra breytinga á vinnumarkaði. Þá er viðvarandi áskorun að vinda ofan af ótryggum ráðningasamböndum, uppgangi gulra stéttarfélaga og gera fólki kleift að njóta þeirra réttinda sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp áratugum saman.

 

Samþykkt á miðstjórnarfundi ASÍ á fullveldisdaginn 2021

Launakönnun Vörðu - hvetjum félagsmenn til svara

Konnun

Varða, rannsóknarstofnun ASÍ og BSRB á sviði vinnumarkaðar, félags-og efnhagsmála, stendur nú fyrir könnun á stöðu launafólks. Spurt er um tekjur, stöðu á húsnæðismarkaði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu ásamt fleiru.  Könnunin er alls ekki löng og má reikna með að hægt sé að svara henni að fullu á innan við 10 mínútum.  Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.

Könnunin verður opin til 8. desember og er unnt að svara henni á netinu á slóðinni:  

https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Varða gerði sambærilega könnun fyrir ári síðan og er mikilvægt vegna rannsókna á högum launafólks að ná góðri þátttöku.

AFL Starfsgreinafélag og Eining Iðja hafa nýlokið viðamikilli viðhorfskönnun og því munum við ekki senda boð um þessa könnun í tölvupósti eða textaskilaboðum á einstaka félagsmenn þar sem við teljum nóg komið af slíkum hvatningarpóstum í bili.  Engu að síður hvetur AFL Starfsgreinafélag félagsmenn sína til að svara þessari könnun og aðstoða heildarsamtökin við að fá skýra mynd af aðstæðum launafólks.

Unnt er að svara könnuninni á íslensku, ensku og pólsku.  Dregið verður úr svarendum og vinna þrír þátttakenda 30.000 króna gjafakort hver.

"Mínar síður" nú á sjö tungumálum

MínarSidur

"Mínar síður" - MÍNAR SÍÐUR-  MY PAGES -  MOJE STRONY -  MOJE STRÁNKY  -  MANO PUSLAPIS!  -  MOJE STRANE - AFLs Starfsgreinafélags eru nú á sjö tungumálum: Íslensku, ensku, pólsku, tékknesku, rúmensku, litháísku og serbnesku /króatísku.  Unnið hefur verið að fjölgun tungumála síðustu vikur og hefur félagið leitað til félagsmanna eftir þýðendum.  Enska og pólska útgáfan er fengin hjá Lingua Norðan Jökuls sem er þýðingarþjónusta á Egilsstöðum.  Þýðendur á tékknesku, rúmensku, litháísku og serbnesku eru fengnir meðal félagsmanna.

Það eru um 4.000 orð og hugtök sem eru þýdd á "mínum síðum" sem þýðir að félagsmenn geta leigt orlofshús og íbúðir, sótt um sjúkra-og menntastyrki og leitað sér upplýsinga á mínum síðum á sínum tungumálum.  Um 70% félagsmanna AFLs eru með íslenskt ríkisfang en fjölmennasti hópur félagsmanna þar fyrir utan er með pólskt ríkisfang - þar á eftir koma félagsmenn með tékkneskt ríkisfang, svo rúmenskt og loks litháískt.

Ef bætt verður við tungumálum verður spænska næst fyrir valinu því þar er vaxandi fjöldi félagsmanna.

Gefnir hafa verið út fjórblöðungar með leiðbeiningum um "mínar síður" á þessum tungumálum öllum nema rúmensku - en sá bæklingur er væntanlegur á næstu dögum.

Þannig virka MÍNAR SÍÐUR! íslenska 

Here is how MY PAGES works! Enska!

Tak działają MOJE STRONY Polska

Takhle fungují MOJE STRÁNKY! Tekkneska

Štai kaip veikia MANO PUSLAPIS! Lithaska

Evo kako funkcionišu ”MOJE STRANE” serbneska

Almenningur situr síðan eftir með hærri þjónustugjöld og lægra þjónustustig.

 

 

míla

Með fyrirhugaðri sölu á dreifikerfi íslenska símakerfisins til erlendra fjárfesta er vegið að almannahagsmunum.  Fjárfestar um heim allan sækja mjög í að fjárfesta í svokölluðum innviðum – þ.e. grunnkerfum hvers samfélags af því þar eru tekjur öruggar og áhætta lítil. Uppbygging var kostuð af skattfé almennings en hagnaðurinn er einkavæddur.

Á Íslandi er starfrækt „þjóðaröryggisráð“ en fæstir vita hvað það ráð gerir.  Árið 2016 samþykkti  Alþingi „Þjóðaröryggisstefnu“ þar sem m.a. er fjallað um „netöryggi og „áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu...“ og ennfremur „ógnum við fjármála-og efnahagsöryggi.“  Þrátt fyrir þessa stefnu hafa stjórnvöld setið aðgerðarlaus á meðan greiðslukortamiðlun á Íslandi hefur öll færst í eigu erlendra aðila og nú á meðan unnið er að sölu á grunnkerfi fjarskipta.

Stjórn AFLs Starfsgreinafélags krefst þess að stjórnvöld grípi þegar til aðgerða til að tryggja hagsmuni almennings og stöðvi þegar í stað fyrirhugaða sölu á einni helstu grunnstoðum nútímasamfélags úr landi og leysi kerfið þess í stað til sín og komi í almannaeigu eins það var uppbyggt.  Einnig að koma þegar í stað upp innlendri greiðslukortamiðlun í umsjón Seðlabankans.

Á sama hátt gerir stjórn AFLs þá kröfu til Þjóðaröryggisráðs og alþingis að skilgreindir verði hið fyrsta þeir grunnþættir samfélagsins sem falla undir þjóðaröryggi og almannahagsmuni og ráðstafanir gerðar til að hindra að með þá verði farið sem hvern annan varning á frjálsum markaði. Á þetta m.a. við um öll samgöngumannvirki, fjarskipti, heilbrigðisþjónustu og greiðslumiðlunarkerfi.

Grunnstoðir hvers samfélags hafa verið byggðar upp fyrir almannafé – oft af litlum efnum og með miklum fórnum almennings.  Einkavæðingaræði síðustu áratuga hafa fært þessa innviði í einkaeigu þar sem hagnaðurinn fer allur í vasa auðmanna. Yfirleitt eru þessir „innviðir“ í nánast einokunarstöðu á sínum markaði og samkeppni illmöguleg.

Frekari uppbygging og viðhald innviða er þá komið í hendur einkaaðila og vogunarsjóða frekar en sem stefnumótun stjórnvalda.  Þessi þróun hefur orðið víða um heim og hér á landi er fyrsti fasinn þegar hafinn með einkavæðingu símans og „ohf“ væðingu póstþjónustu og ríkisútvarpsins og hlutafélagavæðingu annarra ríkisfyrirtækja svo sem flugvalla landsins.  Auðmenn á Íslandi sem og erlendis bíða eftir að fá eignarhald á orkufyrirtækjunum og yfirleitt öllu því sem unnt er að hagnast á.

Almenningur situr síðan eftir með hærri þjónustugjöld og lægra þjónustustig.

Samþykkt á fundi stjórnar AFLs Starfsgreinafélags 28. október 2021

Er Alþingi sama um alþýðuna

Althingi2021

Nýtt fréttabréf AFLs er komið út en einu sinni á ári gefur félagið út þematengt fréttabréf í sérstöku broti.  Að þessu sinni fjallar fréttabréfið um flokkspólitísk tengsl verkalýðshreyfingarinnar í gegnum árin.  Alþýðusamband Íslands var í upphafi "verkalýðsarmur" Alþýðuflokksins svipað og er jafnvel enn fram á þennan dag á Norðurlöndunum hinum. Átök Alþýðuflokksfólks við Sósíalista og Kommúnista innan hreyfingarinnar ágerðust um miðja síðustu öld og einnig fóru hægri menn að blanda sér í baráttuna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur var að lokum "dæmt" inn í Alþýðusambandið sem hafði  neitað VR um aðild því það félag var lengi undir stjórn Sjálfstæðismanna.

Rætt er við nokkra fyrrum forystumanna Alþýðusambandsins sem tengdir voru inn í flokksstjórnmálin.  Þá er rætt við nokkra trúnaðarmanna AFLs og loks er "drottningarviðtalið" við sameiningarsinnann Sigurð Hólm Freysson, varaformann AFLs, en hann stóð m.a. að sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð, sameiningu Lífeyrissjóða Austurlands og Norðurlands í Stapa Lífeyrissjóð og sameiningu stéttarfélaga á Austurlandi í AFL Starfsgreinafélag.  Þá er og skemmtilegt viðtal við Smára Geirsson á Neskaupstað - en enginn er fróðari um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Austurlandi en hann.

Þá er boðið upp á stjórnmálaprófið í blaðinu.  Ertu sósíalisti, vinstri eða hægri krati eða kannski bara frjálshyggjupési?

 

Íslenska flugmannafélaginu neitað um inngöngu í Norræna flutningamannasambandið

Íslenska flugmannafélaginu (ÍFF) (flugmenn og flugliðar Play)  hefur verið neitað um inngöngu í Norræna flutningamannasambandið (NTF) vegna augljósra galla á núverandi kjarasamningi félagsins við sína umbjóðendur.

Íslensku stéttarfélögin sem eiga aðild að Norræna flutningasambandinu (Flugfreyjufélag Íslands, Félag Íslenskra atvinnuflugmanna, Flugvirkjafélag Íslands) lögðust gegn því að aðild (ÍFF) að sambandinu yrði endurnýjuð þar sem ÍFF gerði kjarasamning án aðkomu þeirra sem samningnum var ætlað að taka til, þ.e. flugfreyja og flugþjóna.

Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) átti aðild að Norræna flutningasambandinu á árunum 2017-2019 en eftir gjaldþrot WOW-air í mars 2019 var aðildin dregin til baka. ÍFF sótti um endurnýjaða aðild í sumar en var hafnað með áðurnefndum rökum. NTF hvetur ÍFF til að gera bragarbót á núgildandi kjarasamningi við flugliða hjá Play hið fyrsta.

einn rettur logo 002            VIRK starfsendurhæfingasjóður     vertuaverdi