AFL starfsgreinafélag

Árangurslaus samningafundum með sveitarfélögum.

Fyrsti samningafundur AFLs með sveitarfélögunum var haldinn í gær eftir að AFL dróg umboð sitt til baka frá Starfsgreinasambandinu. Fundurinn var boðaður af ríkissáttasemjara og varð áranguslaus

Ræstingarauki um næstu mánaðarmót

Raestingin

Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars síðastliðnum, var samið um ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum á almenna markaðnum. Þetta þýðir að ræstingarfólk fær sérstaka viðbótargreiðslu með launum frá og með ágúst sem greidd verða út um næstu mánaðamót.

Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur

Félagsmenn í AFLi sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að fylgjast með, skoða launaseðla sína vel nú sem endranær.

Stórt skref til bak í réttindamálum sjómanna: Togarasjómenn landa sjálfir

Þerney24aMyndin er tekin af heimasíðu Brim ehf.

Nýverið gerði Sjómannafélag Íslands (sem ekki er aðili að Sjómannasambandinu) vinnustaðasamning fyrir áhöfnina á Þerney sem er nýr frystitogari. Með samningnum taka sjómenn að sér að landa aflanum sjálfir en íslenskir togarasjómenn hafa ekki unnið við löndun í áratugi og skýrt er kveðið á um í kjarasamningum að menn eigi hafnarfrí. 

Hér fyrir neðan fer ályktun framkvæmdastjórnar Sjómannasambands Íslands - sem er vægast sagt ekki hress með þetta félagslega undirboð Sjómannafélags Íslands. það er af sem áður var að Sjómannafélag Reykjavíkur (nú Sjómannafélag Íslands) fór í fararbroddi í kjarabaráttu sjómanna og var forystuafl í Alþýðusambandinu. 

 

Sjómenn ganga í störf hafnarverkamanna og taka að sér löndun eftir langa útiveru.

Sjómannasamband Íslands leggur það ekki í vana sinn að hlutast til um kjarasamninga annara „stéttarfélaga“. Nú er hins vegar svo komið að ekki verður orða bundist.

Útgerðarfélagið Brim hf með blessun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og Sjómannafélags Íslands, hafa nú gert með sér svokallaðan „vinnustaðarsamning, um fyrirkomulag vinnu í inniverum“ fyrir skipverja á Þerney Re, sem er frystiskip Brims hf, nýskráð á Íslenska skipaskrá.

Þessi svokallaði inniverusamningur var borinn undir atkvæði áhafnarinnar með fulltingi Sjómannafélags Íslands. Áhöfnin samþykkti gerninginn sem er auðvitað með hreinum ólíkindum og vafi leikur á hvers vegna. Brim hf, SFS og Sjómannafélag Íslands, hafa nú staðfest samninginn fyrir sitt leiti. Samningurinn gengur m.a. út á að sjómennirnir landi aflanum sjálfir, fyrir smánarlaun. Aldrei áður hafa Íslenskir togarasjómenn landað aflanum sjálfir.

Með þessu standa Sjómannafélag íslands, Brim hf og SFS að réttindi sjómanna eru færð marga áratugi aftur í tímann. Frystitogarasjómenn hafa aldrei þurft að landa aflanum sjálfir. Með þessu er brotið blað í réttindamálum íslenskra sjómanna. Áratuga barátta forvera okkar er brotin á bak aftur.

Sjómenn á togurum eiga frí við löndun eins og skýrt er í kjarasamningi og verið hefur í áratugi.

Öryggi sjómanna er stefnt í hættu með því að fara beint í löndun eftir að hafa staðið í þrifum á skipi nánast alla heimferð.   Áhöfnin er þreytt og slæpt eftir langan túr og ekki eins vakandi eins og þarf við hættuleg störf. Jafnvel að koma úr 40 daga túr.

Þessi samningur er einnig það sem kallað er „félagslegt undirboð“ sem er þegar menn taka að sér störf fyrir lægra gjald en áður hefur verið samið um – en hvati útgerðarinnar til að gera þennan samning er auðvitað að þetta er mun ódýrarara en að greiða hafnarverkamönnum fyrir löndunarþjónustu.

Sjómannasamband Íslands hvetur alla sjómenn og stéttarfélög sjómanna innan SSÍ að vera á verði gegn réttindamissi af þessu tagi. Þetta er hrein og klár misnotkun á ákvæði kjarasamninga um sérsamninga. Ef viðsemjendur okkar ætla og vilja að réttindi Íslenskra sjómanna verði færð marga áratugi aftur í tímann er einsýnt að kjarasamningum verður sagt upp við fyrsta tækifæri. Ein af kröfum okkar verður þá að öll frávik frá aðalkjarasamningi verði felld þaðan út.

Tekið skal fram að Sjómannafélag  Íslands er ekki  eitt af 16 aðildarfélögum  Sjómannasambands Íslands.

Framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands

Kjarasamningur við ríkið 2024-2028 samþykktur

sgs rikid nidurstada

 

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 1.-8. júlí. Á kjörskrá voru 1.309 manns og var kjörsókn 22,84%. Já sögðu 87,96%, nei sögðu 7,69% og 4,35% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf. 

Frétt af heimasíðu sgs.is

 

 

Samið við sveitarfélögin – án AFLs

Starfsgreinasamband Íslands f.h. aðildarfélaganna 18 hefur á liðnum mánuðum verið í viðræðum við Samband Íslenskar sveitarfélaga um endurnýjun kjarasamnings milli aðila sem runnu út í lok mars s.l.

Í gær var skrifað undir nýjan kjarasamning til fjögurra ára, en viðræðum hafði áður verið vísað til ríkissáttasemjara. AFL starfsgreinafélag dró umboð sitt til baka frá Starfsgreinasambandinu áður en skrifað var undir vegna deilu um sérákvæði við Sveitarfélagið Hornafjörð sem engar viðræðum hafa fengist um.

Sérákvæði eiga sér forsögu og eru frá þeim tíma þegar samið var sérstaklega við hvert sveitarfélag fyrir sig. Þegar gerður var miðlægur kjarasamningur fyrir ca tveim áratugum síðan var það samkomulag milli stéttarfélagsins og viðkomandi sveitarfélags að halda í ýmis ákvæði sem eru fjölmörg í kjarasamningum við hin ýmsu sveitarfélög. Ekkert sveitarfélag hefur leitast við að losna undan þessum eldri ákvæðum nema Sveitafélagið Hornafjörður sem nú gengur fram og svíkur gamalt samkomulag.

Til að bíta höfuðið af skömminni hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins neitað að ræða málið og sýna þar í verki virðingarleysi við starfsmenn sveitarfélagsins.

Það að umboðið var dregið til baka þýðir, að ósamið er við öll sveitarfélögin á félagssvæði AFLs vegna afstöðu Hornafjarðarbæjar.

Kjarasamningur undirritaður við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs

Átján aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands, þar með talið AFL Starfsgreinafélag, eru aðilar að samningum sem gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028. Samningurinn er á svipuðum nótum og aðrir þeir samningar sem ríkið hefur gengið frá að undanförnu.

Nánar hér …

Fyrirkomulag kynninga til félagsmanna AFLs  sem starfa samkvæmt kjarasamningnum hjá stofnunum ríkisins liggur fyrir fljótlega svo og atkvæðagreiðsla sem lýkur 8. júlí.