AFL starfsgreinafélag

Ný námsleið fyrir "samfélagstúlka"

sveitaf

Haustið 2023 stefnir Austurbrú að því að fara af stað með með námsleiðina Samfélagstúlkur en það er hagnýt námsleið fyrir einstaklinga sem hafa áhuga á að taka að sér verkefni sem túlkar.

Gert er ráð fyrir að námið hefjist með staðlotu á Egilsstöðum eða Reyðarfirði  09. – 10. september. Kennslan fer fram á íslensku og gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi gott vald á íslensku og a.m.k einu öðru tungumáli sem vinnutungumáli.

Í náminu verða 2 staðlotur á Egilsstöðum og/eða Reyðarfirði. Þá verður einnig kennslustundir á netinu á miðvikudögum frá kl. 17:30-20:30

Austurbrú vill  vekja athygli á þessari námsleið og hvetja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að kynna námsleiðina fyrir sínu starfsfólki og hvetja til þátttöku. Kostnaður við námið er 43.000 kr. og geta einstaklingar og fyrirtæki sótt um endurgreiðslu á námskeiðsgjaldinu til sinna starfsmenntasjóða.

 

Skráning fer fram á heimasíðu Austurbrúar.

Hugleiðingar formanns Sjómannasambandsins á Sjómannadaginn

Valmundur

 

Komið sæl félagar.

Sjómannadagurinn er á sunnudaginn. Af því tilefni óska ég sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar Sjómannadagshátíðar.

Eins og við öll vitum var kjarasamningur sem SSÍ undirritaði fyrir hönd sinna félaga þann 7. febrúar sl. felldur. Litlar þreifingar hafa verið síðan þá. Einn fundur með SFS þar sem farið var yfir úrslit atkvæðagreiðslunnar og hvað væri til ráða. Skemmst er frá að segja að viðsemjendur okkar eru ekki tilbúnir að gefa meira í samninginn á þeim tímapunkti. Nú hafa VM og SVG verið að funda með SFS hjá Sátta, þrisvar sinnum. Guðmundur hefur haldið okkur upplýstum um þær viðræður. Það er verið að tala um hækkun á skiptaprósentu í lífeyrisleiðinni, hærra tímakaup fyrir vélamennina, breyting á orðalagi í grein 1.39.1., opið uppsagnarákvæði eftir 5 ár og dittinn og dattinn. En útgerðin spyr alltaf á móti hvað sjómenn vilja láta á móti. Þannig að á þessum tímapunkti er lítið að gerast.

En hvað varð til þess að sjómenn felldu?

Fyrir það fyrsta undirritaði Sjómannafélag Íslands samninginn nokkrum dögum á eftir okkur og fór í að rakka hann niður á öllum vígstöðvum með öllum tiltækum ráðum. Reynt var að fara gegn þeim á samfélagsmiðlunum en þar var mér hent út og öllu sem ég skrifaði var eytt í snarhasti.

Við fórum víða um land og vorum einnig með Teams fundi og kynntum samninginn. Mætingin var satt að segja ekki nógu góð en þar sem sjómenn komu á kynningu var samningnum vel tekið. En það er ekki nóg þegar leynt og ljóst er grafið undan þeirri vinnu sem átti sér stað.

Tímalengd samningsins fór fyrir brjóstið á sumum en þegar upp er staðið var verið að festa hlutaskiptakerfið í sessi enn frekar með tímalengdinni og tryggja hækkun kauptryggingar og kaupliða jafnhliða með tengingu við SGS taxta. Einnig er uppsagnarákvæði sem hægt er að virkja. Uppsagnarákvæðið má styrkja enn frekar held ég og virðist vera fær leið hjá SFS.

Fyrir 3,5% mótframlagið greiddu sjómenn 1/3 af kostnaðinum en útgerðin 2/3. Það samsvarar um 1,5 milljarði í kostnaðarauka fyrir útgerðina á ársgrundvelli. Það er greinilega ekki nóg þannig að reyna verður að lækka þann kostnað sem sjómenn láta í mótframlagið.

Grein 1.39.1. fór illa í marga en í raun er verið að styrkja þá grein sem hefur verið í kjarasamningi frá 2004. Þessi breyting hefði styrkt félögin til að koma að breytingum á útgerðarháttum og eða nýjum veiðigreinum með þeim hætti að viðunandi sé. Þessari grein ætti að vera hægt að breyta þannig að sátt náist um hana.

Að gert sé upp úr 100% aflaverðmæti er til mikillar einföldunar á hlutaskiptunum og festir hlutaskiptin enn frekar í sessi. Olíuverðsviðmiðið fellur út svo ekki þarf að rífast um það meir. Orkuskiptin eru fram undan í útgerðinni á Íslandi. Líta má svo á að framlag sjómanna til orkuskiptanna sé sú sátt sem fellst í að olíuverðsviðmiðið falli út.

En ef vilji er til má hafa það áfram inni og reikna erlendu verðbólguna inn í viðmiðunartöflurnar.

Við höfum heyrt að sjómenn séu ósáttir með að þurfa að ísa yfir afla í löndun. Þeir þurfa þess ekki ef búið er að ráðstafa aflanum. Einungis ef afli fer óseldur í gáma til útflutnings. Ef brögð eru að þessu þá þarf að gera fyrirtækjunum það alveg ljóst að þeir eru að brjóta kjarasamning sem getur varðað sektum. Ef afli er seldur þegar komið er í land er aflinn á ábyrgð útgerðar en ekki áhafnarinnar. Nú þegar lítið stopp er á milli túra er þetta enn brýnna að hafa þetta í huga.

Ýmislegt fleira má tína til en læt þetta nægja að sinni.

Eins og kunnugt er samþykktu skipstjórnarmenn samninginn. Það bindur hendur okkar talsvert en þó ekki alveg að mínu mati. Tilfæringar má eflaust gera á hinum fellda samningi okkur til hagsbóta. Við höfum óskað eftir fundi með Sáttasemjara í næstu viku en ekki er kominn tími á hann þegar þetta er ritað.

Góða skemmtun um Sjómannadagshelgina

Kveðja Valmundur

SGS vísar kjaradeilu við ríkið til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) telur einsýnt að ekki verði komist lengra í viðræðum við samninganefnd ríkisins vegna endurnýjunar kjarasamnings SGS og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs sem rann út 31. mars 2023. Samningsaðilar hafa á undanförnum vikum átt fjölmarga fundi þar sem SGS hefur komið kröfum sínum málefnalega á framfæri við samninganefnd ríkisins, en án árangurs.

Í ljósi þess hversu langt er á milli aðila lítur SGS svo á að ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Jafnframt var farið fram á það við ríkissáttasemjara að hann boði til fundar eins fljótt og auðið er, enda óásættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir sanngjörnum kjarabótum.

Kjarasamningar AFLs við Ríkið gildir fyrir stofnanir ríkisins á félagssvæðinu s.s. Heilbrigðisstofnanir Austurlands og Suðurlands, skógræktina, veðurstofuna, vegagerðina, umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð, framhaldsskóla auk fleiri.

Verkfall BSRB í sundlaugum og íþróttamannvirkjum Fjarðabyggðar

Samkvæmt aðgerðaskrá á heimasíðu BSRB hefjast verkföll í sundlaugum og íþróttamannvirkjum Fjarðabyggðar 27. maí og standa út 29. maí.  Á þessum stöðum vinna bæði félagsmenn AFLs og félagar innan BSRB.

AFL Starfsgreinafélag hefur sent erindi á félagsmenn sína sem vinna hjá Fjarðabyggð að þau gangi ekki í störf verkfallsfólks og bæti ekki á sig verkefnum þeirra eða taki þær vaktir sem BSRB félagar voru skráðir á.

Við hvetjum alla félagsmenn okkar til að virða verkfall BSRB félaganna og ganga ekki í störf þeirra.

Íslandsmet í starfsmannastjórnun án atrennu

Múlaþingi hefur á röskum þremur mánuðum tekist að efna til mikils ófriðar milli sveitarfélagsins og starfsmanna við grunnskóla þess. Upphaf málsins er að seinnipartinn í janúar sendi sveitarfélagið öllum starfsmönnum við grunnskóla sem eru félagsmenn í AFLi - s.s. skólaliðum, stuðningsfulltrúum og húsvörðum, erindi þar sem hluta ráðningarkjara var sagt upp.  Í kjölfarið hófst deila milli AFLs og Múlaþings þar sem AFL heldur því fram að bréfið sé jafngilt uppsögn þar sem ekki sé unnt að segja upp hluta ráðningarkjara nema með því að segja starfsmanni upp og bjóða viðkomandi að halda áfram störfum á lægri kjörum.

Múlaþing hefur haldið því fram að bréf þeirra sé ekki uppsögn og að starfsfólki beri að segja upp ef það ekki uni breytingum á kjörum. Málinu var skotið til samstarfsnefndar Sambands Sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins en nefndin klofnaði í afstöðu og skilaði ekki niðurstöðu. 

Nú fyrir nokkrum dögum fóru síðan félagsmenn AFLs að tilkynna að þeir myndu ekki una þessum breytingum og að þau myndu láta af störfum nú um mánaðarmótin og miða þá við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Var það í samræmi við frest er Múlaþing hafði gefið starfsmönnum til að svara því hvort þeir myndu una breyttum ráðningarkjörum.

Múlaþing brást við þessu með tilraun til að draga uppsagnirnar (þ.e. bréfið frá í janúar) til baka - en  ekki er unnt að draga uppsagnir einhliða til baka þar sem við uppsögn rofnar ráðningarsambandið.  Múlaþing  sendi félagsmönnum AFLs síðan skilaboð nú í morgun,  þar sem því er hótað að mæti fólk ekki til vinnu eftir helgi - verði litið á það sem "brotthlaup úr vinnu" en það er brot á bæði kjarasamningum og einnig grein 25 í hjúalögum frá 1928 og liggja fjársektir við brot á þeim lögum - eða sem jafngildir helmingi óunnins vistartíma.

Það er því ljóst að samskipti Múlaþings vegna áformaðra breytinga á ráðningakjörum hafa farið fram með uppsögn, fortölum, þrasi, eftirsjá og hótunum.  Leitun er að jafn skrautlegum ferli máls.

Starfsfólk sem verið hefur í sambandi við AFL hefur lýst samskiptunum sem mjög einhliða og hrokafullum.  AFLi hefur verið meinað að koma með félagsmönnum á kynningarfundi um fyrirhugaðar breytingar - breytingarnar hafa verið kynntar á tilbúnum glærusýningum og starfsfólk almennt upplifað að talað væri niður til þess og ekki væri ætlast til að það gerði athugasemdir eða spyrði spurninga.

Ekki er enn ljóst hvað starfsfólkið mun gera nú um mánaðarmótin - en ljóst er að AFL mun aðstoða félagsmenn sem reynt verður að hýrudraga og fara í innheimtumál ef til þess kemur.

AFL hefur haldið á málum frá upphafi í samráði við lögmenn Alþýðusambandsins.

Lokað á Reyðarfirði og Egilsstöðum

Skrifstofur félagsins á Reyðarfirði og Egilsstöðum verða lokaður frá kl. 12:00 í dag vegna jarðafarar.  Opið verður á Höfn og á Vopnafirði og svarað verður í síma til kl. 16:00 í 4700 300.