AFL starfsgreinafélag

Skrifað undir við sveitarfélögin!

Samningagerd

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 17 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023. Sjá Samninginn

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka um 90.000 kr. á tímabilinu 1. janúar 2020 til 1. janúar 2022. Þann 1. janúar 2023 hækka laun í samræmi við hækkanir á almennum vinnumarkaði.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vegna þess hversu lengi það hefur dregist að gera kjarasaming fá félagsmenn greidda eingreiðslu, upp á samtals 195.000 kr., miðað við fullt starf tímabilið 1. apríl til 31. desember 2019. Til frádráttar kemur 125.000 kr. innágreiðsla frá því í október 2019.
  • Persónuuppbót sem greiðist 1. maí ár hvert og nemur 50.450 kr. fyrir fullt starf árið 2020. Desemberuppbót hækkar úr 115.850 kr. árið 2019 í 124.750 kr. árið 2022.

Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að leiðrétta og endurskoða fyrirkomulag ráðninga tímavinnufólks. Þá verður stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum verður nú í ár og fá allir félagsmenn í fullu starfi greiddar 61.000 kr. Starfsmenn sem eru ekki í fullu starfi fá greiðslu miðað við starfstíma og starfshlutfall.

SGS mun áfram taka fullan þátt í starfshópi aðila opinbera vinnumarkaðarins sem fjallar um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks. Nái starfshópurinn niðurstöðu um frekari breytingar munu samningsaðilar taka upp viðræður um með hvaða hætti þær verða innleiddar.  Hægagangurinn sem hefur verið í þeirri vinnu er alfarið á ábyrgð samningarnefndar ríkisins og ekki hægt bíða þeirrar niðurstöðu til að okkar fólk fái löngu tímabærar launahækkanir.

Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtlas í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 10. febrúar. (fréttin er tekin af vef Starfsgreinasambandsins)

Viðræður við sveitarfélögin í gangi

Í gær hittust viðræðunefndir SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar funda hjá Ríkissáttasemjara og funduðu fram eftir degi en ekki hefur verið fundað í deilunni síðan 19. desember sl. Eftir fundinn í gær (mánudag) var ákveðið að setjast yfir viðræðurnar og funda áfram í vikunni og freista þess að ná niðurstöðu.

Búast má við að fundað verði í viðræðum SGS og samninganefndar ríkisins síðar í þessari viku, en sá fundur hefur enn ekki verið boðaður.

Eins og fram hefur komið á opinberum vettvangi þá hefur vinna í vinnuhópi um málefni vaktavinnufólks farið fram samhliða viðræðunum, en í þeim hópi sitja fulltrúar frá SGS, BSRB, BHM og Félags hjúkrunarfræðinga og frá samninganefndum ríkisins, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Sú vinna hefur gengið hægt og er hluti af því hve seint gengur.

Menntasjóðir - Hækkun á hámarki einstaklingsstyrkja

menntasjodir 

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sjómenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og IMA samþykktu nú í desember að hækka hámark einstaklingsstyrkja úr 100.000 kr. í 130.000 kr. þar með hækkar einnig hámark á uppsöfnuðum rétti til styrks í kr. 390.000.-

Hækkunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2020 og gildir gagnvart því námi sem hefst frá og með þeim tíma.

Meðalheildarlaun AFLs félaga 619 þúsund kr. á mánuði

heildarlaun starf

Félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags  höfðu að meðaltali 619.000 í heildarlaun fyrir septembermánuð miðað við 100% starf.  Miðgildi launa félagsmanna - þ.e. jafnmargir eru launahærri og jafnmargir eru launalægri en miðgildið - er 576.000 kr.  Þetta er meðal niðurstaða viðhorfs-og launakönnunar AFLs Starfsgreinafélags sem Gallup  framkvæmir árlega fyrir AFL og Einingu Iðju á Akureyri.  Úrtak félagsins var 1.500 félagsmenn og svarhlutfall rétt innan við 50%.

Launahæstir innan félagsins voru sjómenn en meðaltekjur þeirra í septemberr voru kr. 1.069.000.  Starfsmenn við framleiðslustörf voru með 715.000 að meðaltali í septemberr en þeir félagsmenn sem vinna iðnaðarstörf, við mannvirkjaframkvæmdir eða vinna við tækjastjórnun og vélgæslu eru með yfir 600.000 í meðallaun.

Lægst meðallaun eru í umönnun og störf í skólum og leikskólum.  Stuðningsfulltrúar, skólaliðar og starfsmenn leikskóla eru með 417.000 í meðallaun í september en starfsmenn við umönnun með 468.000.

Langhæstu meðallaunin voru á Vopnafirði og Neskaupstað - eða um 690.000 á hvorum stað.  Lægst meðallaun voru í minni þéttbýliskjörnum og með ströndinni  suður að Höfn - eða kr. 521.000 kr. fyrir september.  Karlar höfðu mun hærri heildartekjur að meðaltali en konur eða 683.000 vs. 513.000.

Óverulegur munur er á meðallaunum eftir aldri að undanskildum yngsta hópnum  18- 23 ára sem hefur lægri heildartekjur en þeir sem eldri eru.  Þá er óverulegur munur á tekjum eftir menntun og hafa þannig félagsmenn AFLs með mesta menntun svipaðar tekur og félagsmenn með minnsta menntun. Þeir sem lokið hafa framhaldsskólaprófi hafa lægstar meðaltekjur.  Sjá myndina hér að ofan.

heildarlaun staður

 

Félagsmenn AFLs vinna að meðaltali um 10 yfirvinnutíma á viku og hefur yfirvinna farið minnkandi frá því að við hófum að mæla hana. 

yfirvinna Gallup

 

 

 

Könnunin í heild verður aðgengileg á heimasíðu AFLs á næstu dögum.