Nýgerðir kjarasamningar verða afgreiddir í póstatkvæðagreiðslu hjá AFLi Starfsgreinafélagi. Kjörgögn hafa verið send út til þeirra félagsmanna sem hafa atkvæðisrétt um samningana - þ.e. þá sem starfa skv. samningum SGS, LÍV og Samiðnar við Samtök atvinnulífsins.
Atkvæði þarf að póstsetja fyrir 17. janúar eða berast á næstu skrifstofu fyrir 20. janúar. Talning atkvæða fer fram 21. janúar 2014.
Þær breytingar verða á fyrirkomulagi við leiguíbúðir félagsins í Reykjavík frá áramótum að umsjónarfyrirtækið, Sólar - ræstingar, munu eftirleiðis skúra gólf og annast minni háttar hreingerningar eftir hverja leigu. Félagsmenn eiga eftir sem áður að ganga frá rúmfötum í þvottakörfu, þrífa borð og bekki og henda öllu rusli í ruslageymslu og fjarlægja allar matarleyfar. Um leið og félagið bætir þannig þjónustu við félagsmenn sem dvelja í íbúðunum - verður og gengið harðar eftir að leigutakar virði umgengnisreglur og reglur um viðskilnað - og verður leigutökum gerður reikningur fyrir aukaverk sem til falla vegna lélegs viðskilnaðar.
Nýgerðir kjarasamningar verða afgreiddir í póstatkvæðagreiðslu hjá AFLi Starfsgreinafélagi. Kjörgögn verða send út til þeirra félagsmanna sem hafa atkvæðisrétt um samningana - þ.e. þá sem starfa skv. samningum SGS, LÍV og Samiðnar.
6. - 10. janúar verða haldnir vinnustaðafundir og almennir félagsfundir á flestum eða öllum þéttbýlisstöðum félagssvæðisins til að kynna innihald samninganna. Vinnustaðir sem óska sérstaklega eftir heimsókn fulltrúa félagsins geta haft samband við næstu skrifstofu félagsins.
Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.
Sérstök hækkun kauptaxta
Í stað áðurgildandi kauptaxta komi nýir sem eru hluti samninga viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ. Launataxtar undir 230.000 kr. á mánuði hækka sérstaklega um 1.750 kr. hjá verslunarmönnum, hjá verkamönnum 1.665 - 2.107 kr.
Kauptaxtar gilda frá 1. janúar 2014.
Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skv. kjarasamningum viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ skulu vera kr. 214.000 frá 1. janúar 2014 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.
Desember- og orlofsuppbót
Desemberuppbót miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 53.600 (VR/LÍV 60.900).
Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 29.500 (VR/LÍV 22.200).
Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.
Aðalfundur sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags verður haldinn að Búðareyri 1 Reyðarfirði laugardaginn 28. desember kl. 14:00
Dagskrá:
1. Skýrsla formanns um liðið starfsár
2. Kjaramál
3. Kosning stjórnar
4. Önnur mál
83% félagsmanna AFLs Starfsgreinafélags telja að verkalýðsfélög eigi að taka skýra afstöðu og jafnvel forystu í samfélagsmálum. Þessi skoðun er jafnvel ákveðnari meðal félagsmanna Einingar - Iðju eða 86%. Hins vegar eru félagsmenn ekki fylgjandi því að forystumenn verkalýðsfélaga gefi kost á sér til forystu í stjórnmálaflokkum.
Einungis 24% AFLs félaga og 31% Einingarfélaga eru hlynnt því að forystumenn verkalýðsfélaga gefi kost á sér til forystustarfa í stjórnmálaflokkum.