Nei frá ríkisstjórn
Embættismenn ríkisstjórnarinnar höfnuðu í dag tillögum sem landssambönd Alþýðusambands Íslands lögðu fram fyrripart desember um m.a. skattalækkanir. Með því er staða kjaraviðræðna komin í uppnám og náist ekki árangur fyrir helgi má búast við að Starfsgreinasambandið vísi kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara.
Hugmyndir ASÍ félaganna voru m.a. sérstakur persónuafsláttur fyrir þá tekjulægstu en á þeim grunni byggði samflot landssambandanna innan ASÍ um launaramma. Með því að ríkisstjórnin hefur hafnað þessum hugmyndum munu landssamböndin leita samninga hvert fyrir sig. Boðaður hefur verið fundur samninganefndar SGS í hádeginu á morgun.