Pólskir dagar verða haldnir á Reyðarfirði um helgina með fjölbreyttri hátíðardagskrá í Grunnskóla Reyðarfjarðar og Fjarðabyggðarhöllinni. Aðaldriffjöður hátíðarinnar er ung pólsk kona af nafni Beata Marczak, starfsmaður eins af undirverktökum Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.
Hátíðin hefst kl. 17, föstudaginn 21. nóvember, í Grunnskóla Reyðarfjarðar með fjölbreyttri menningar- og tónlistarhátíð. Við setninguna flytja stutt ávörp bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Helga Jónsdóttir og ræðismaður Póllands á Íslandi, Danuta Szostak.
Forseti ASÍ og aðrir forystumenn Alþýðusambandsins ásamt formanni AFLs verða með opinn almennan fund um ástand í efnhags-og kjaramálum nk. þriðjudag á Hótel Héraði á Egilsstöðum. AFL Starfsgreinafélag mun aðstoða félagsmenn við að skipuleggja ferðir, sjá um hópferðir frá þeim stöðum sem þátttaka verður næg og að öðrum kosti taka þátt í ferðakostnaði þar sem fólk hefur samvinnu um bílanotkun.
Gunnar Smári, starfsmaður AFLs, 4700 303, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. er ferðamálastjóri AFLs.
Efnahagsþrengingum fylgir atvinnuleysi. Atvinnuleysi er sóun á hæfileikum og starfsorku fólks. Til að mæta því ástandi sem nú blasir við hafa stéttarfélögin á Austurlandi tekið höndum saman við Þekkingarnet Austurlands, Vinnumálastofnun Austurlandi og fjölmarga aðra aðila. Við höfum sett í gang umfangsmikla dagskrá til endur-og símenntunar. Nk. mánudag kl. 13:00 verður á vegum félaganna og ÞNA kynningarfundur á því helsta sem í boði verður næstu vikurnar og mánuði. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Þekkingarnetsins að Vonarlandi, Tjarnarbraut 39e, Egilsstöðum.
Í dag var samþykkt á alþingi frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur. Meginþáttur breytinganna snýr að minnkuðu starfshlutfalli en það eru algeng viðbrögð við efnahagsástandi nú, að samkomulag verði milli starfsfólks og stjórnenda um minnkað starfshlutfall.
ALCOA tilkynnti í kvöld að fyrirtækið hyggst draga enn úr framleiðslu á áli, eða um 350.000 tonn til viðbótar við samdrátt á árinu. Samdráttur síðustu mánaða verður þá 615.000 tonn en fyrir nokkrum vikum lokaði fyrirtækið verksmiðju í Texas. Í tilkynningu frá ALCOA segir að ekki verði lokað verksmiðju til að ná þessum samdrætti heldur verði dregið jafnt úr framleiðslu í starfandi verksmiðjum ALCOA.
Á fundi með starfsfólki Malarvinnslunnar, stærsta verktakafyrirtækis á Austurlandi, tilkynnti stjórnarformaður fyrirtækisins, Gunnlaugur Aðalbjarnarson, að fyrirtækið væri komið í þrot og starfssemi legðist af í dag eða strax eftir helgi. Tæplega 100 manns hafa unnið hjá Malarvinnslunni síðustu mánuði en 160 starfsmenn voru í sumar þegar þeir voru flestir.